Stefnt á inngöngu í ESB þrátt fyrir höfuðlausa Evrópu
Það óma háværar viðvörunarbjöllur þessa dagana þegar ný ríkisstjórn í landinu viðrar það í stefnuyfirlýsingu sinni að ganga í Evrópusambandið þannig finna lausnir á staðbundnum íslenskum vandamálum. Krónan þykir ómöguleg þó hún hafi í gegnum pest og hamfarir fylgt Evrunni mjög náið í gengisþróun, vextir eru sannarlega eitthvað lægri en kaupmáttur og laun standast engann samanburð við stöðuna hér á landi. Hér má sjá ágæta grein um stöðuna í þessum málum.
Matarkarfan er sannarlega lægri enda ræður markaðurinn ríkjum í verðlagningu. Þar sem laun eru lægri er matarkostnaðurinn lægri, bæði vegna lægri framleiðslukostnaðar og þar með talið lægri laun starfsfólks sem aftur hefur áhrif á kaupmátt og þannig verð til neytenda. Tollastríð er svo yfirvofandi eftir 20. janúar nk. en þá tekur Trump við í Bandaríkjunum. Ljóst er að hann ætlar ekki að gefa Evrópusambandinu, frekar en Kína og öðrum samkeppnisaðilum, neinn afslátt enda er það ekki í samræmi við einangrunarstefnuna sem hann og hans menn predika.
Stríð í Evrópu
Bæði Úkraínumenn og Rússar hafa gefið tóninn um að nú væri kannski rétt að slíðra sverðin og hugsanlega er endurkoma Trumps í Hvíta húsið áhrifamikill þáttur í því samhengi. Trump hefur sagst ætla að koma á friði og hefur líkt og vanalega verið digurbarkalegur í ummælum um slíkt. Hann hefur m.a. annars lofað að binda enda á stríðið á einum degi. Ég efast ekki um að hann muni leggja sitt á vogarskálarnar en það er ólíklegt að hann sitji einn við borðið með Zelensky og Putin. Þar er líklegast að Modi í Indlandi og Xi í Kína muni einnig setjast niður, en eftir því munu einnig leiðtogar innan Evrópu sækjast. Þá helst Olaf Scholz hinn fallni kanslari í Þýskalandi sem leitast eftir endurkjöri og Emmanuel Macron Frakklandsforseti sem hefur verið með allt niður um sig í frönskum stjórnmálum á undanförnum misserum og leitar æru sinnar.
Veik forusta í Evrópu
Flokkur Macrons er búinn að missa meirihluta þingsins eftir afhroð í kosningum sem hann boðaði til í byrjun júlí sl. eftir slaka útkomu flokksins í kosningum til Evrópusambandsþingsins. Þó hann sitji enn er það sterkt merki um að umboð hans innan Frakklands hafi veikst töluvert. Bæði Macron og Scholz þykja hafa staðið sig illa gagnvart Úkraínu. Scholz og stjórn hans þótti bregðast seint við þegar Rússar fóru inn í Úkraínu og þá helst vegna sögu Þýskalands og gas snörunnar sem landið er í gagnvart Rússum. Macron fór svo í þá furðulegu vegferð að reyna að tala Pútín ofan af áformum sínum í Úkraínu og eins og ljóst er gekk sá leikur ekki upp. Til þess að rétta hlut sinn hóf Macron að viðra hugmyndir um að senda evrópskan her inn í Úkraínu sem féll í dauðan jarðveg og dró enn frekar úr trúverðugleika Macrons. Í ofanálag verður að teljast ólíklegt að Úkraínumenn vilji sjá þessa tvo við borðið sem þeir sjá frekar sem undirgefna Pútín, þá helst vegna aðgerðaleysis þeirra í upphafi stríðsins og svo hægagang í aðgerðum þegar stríðið fór að vinda upp á sig.
Evrópa er höfuðlaus
Það er því sem stendur augljós skortur á alvöru leiðtoga innan Evrópu. Sviðið er autt en átök innan stjórnmálanna hægja á og það leiðist Pútín eflaust ekki. Einhverjir kunna að horfa á Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem einhverskonar ígildi leiðtoga en hún er sjálf ekki laus við að hafa verið sökuð um veika andspyrnu gegn framferði Rússa.
Skiptir Evrópa máli?
Á vegferð sinni um vegaleysur millifærslukerfa og skrifræðis hefur Evrópa orðið eftirbátur Bandaríkjanna hvað nýsköpun og efnahag varðar. Það sést best á því að helstu tæknirisar heims urðu til utan álfunnar. Ríki eins og Kína og Indland hafa svo verið í stórsókn á undanförnum áratugum, þó að bóla kínverska efnahagsundursins sé a.m.k. farin að leka all verulega. Í þessum heimi er vægi Evrópu lítið og fyrir land eins og Ísland sem á bandamenn víðar en í Evrópu og búa yfir sterkum varnarsamningi við Bandaríkin er lítið að hafa í ESB. Íslenskir Evrópusinnar kasta því fram að við getum, vegna sérstöðu okkar fengið þá sérmeðferð sem kann að henta okkur. Almenningur geti svo kíkt í pakkann og valið hvort hann henti og notað eða skilað eins og hverri annarri jólagjöf. Málið er reyndar ekki svona flókið. Það er nóg að sjá hvernig öðrum löndum innan sambandsins vegnar. Ósjálfbær sjávarútvegur sem ríkin þurfa að niðurgreiða og orkumál í ólestri vegna eftirgjafar við Rússa.
Þjóðaratkvæðagreiðsla
Hvort eigi að ganga í ESB verður svo ekki útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem JÁ-flokkurinn tapar. Raddir þeirra munu aftur heyrast í næstu „krýsu“ og ný krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu sprettur upp. Evrópusambandið vill fá Ísland inn í sambandið vegna þess að við erum auðug útflutningsþjóð sem hefur sýnt það og sannað með sterkri efnahagsstjórn, öflugu grænu orkuumhverfi og stuttum boðleiðum hvernig er hægt að reka sterkt og sjálfstætt land. Það er næg ástæða fyrir mig að vilja ekki fara inn í höfuðlaust, veikt Evrópusamband.
Höfundur
Skráðu þig á póstlistann
og fáðu nýjustu pistlana beint í æð