Höfundur:
Gísli Stefánsson

Markmiðið er skýrt – Fjórir þingmenn D inn í Suðurkjördæmi

Ég er afar þakklátur fyrir það traust sem mér var sýnt af félögum mínum í kjördæmisráði þegar ég var kosinn í 4. sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi kosningar.

Verkefnið er skýrt. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér að ná fjórum þingmönnum inn í Suðurkjördæmi fyrir komandi kosningar. Ljóst er að stuðningur eyjamanna við framboðið er gríðarlega mikilvægur en sjaldan hefur verið mikilvægara að ná Eyjamanni á þing.

 

Nú þarf að ýta málum áfram

Skýrslan um fýsileika gangna til Vestmannaeyja virðist hafa týnst ofan í skúffu í öllu argaþrasi stjórnmálanna undanfarið. Krafan um að opinbera niðurstöður hennar er hér með komin í loftið og vinnan við það hefst strax.

Byrja þarf strax að finna leiðir til að víkka þann flöskuháls sem er á álagstímum í Landeyjahöfn. Vegagerðin þarf að eignast varaskip sem nýtist öllum ferjuleiðum á landinu jafnt á álagstímum sem og þegar skip fara til viðhalds. Við biðum einnig alltof lengi eftir endurnýjun á ferju til siglinga til eyja svo það er ekki seinna vænna en núna að hefja það samtal.

Verð á heitu vatni í Eyjum er í engum takti við þau lífsgæði sem finnast annars staðar á landinu. Þjónusta fjarvarmaveitna mun alltaf vera, eðli málsins samkvæmt, dýrari en þegar hægt er að dæla heitu vatni beint upp úr jörðinni. Plástrar Orkustofnunar í formi niðurgreiðslna eru hins vegar ekki nægilegir heldur þarf ríkissjóður að mæta kostnaði við fjárfestingu nýrra strengja þannig að flutningur orku til veitunnar verið á rekstarhæfu verði.

Sjúkraþyrluverkefnið var fjármagnað fyrir heimsfaraldur en hefur hins vegar verið á ís síðan. Nú þarf að ræsa vélarnar og þannig auka ekki aðeins öryggi okkar sem búum í eyjum heldur allra á suðurlandi. Viðbragðstími á Hornafirði er ekki boðlegt og vegir í uppsveitum víða ómalbikaðir og í litlu viðhaldi. Ferðamannastraumurinn í kjördæminu er gríðarlegur og það eitt og sér kallar á að þetta mál fari aftur í gang.

 

Verum í virku samtali

Ég hvet ykkur til þess að vera í virku sambandi við mig. Ég mun verða mikið á ferðinni næstu daga um kjördæmið en verð alltaf tilbúinn að taka símann. Kosningastjórn flokksins hefur þegar hafið störf og framundan er fjöldi viðburða um allt kjördæmið og verða Vestmannaeyjar ekki undanskildar því. Ég hlakka því til að sjá ykkur og eiga samtalið.

Höfundur

Gísli Stefánsson

Skráðu þig á póstlistann

og fáðu nýjustu pistlana beint í æð