Listræn upplýsingagjöf
Eftir að hafa sjálfur starfað við að skapa list þekki ég að það er ekki bara hægt að setja færibandið í gang og vænta þess að verkinn renni út eftir því. Allt þarf tíma og í list er sá tíminn í raun afstæður. Verkin verða til þegar þau verða til og að setja kröfur á hvenær skila á verki er í mörgum tilfellum óraunhæft. Sama er þó ekki hægt að segja um upplýsingagjöf.
Takmarkaðar efndir
Á síðasta fundi bæjarstjórnar fór töluverð orka í að ræða listaverk sem áæltað er til minningar um eldgosið á Heimaey. Í upphafi stóð til að verkið yrði afhent bæjarbúum á 50 ára goslokaafmælinu síðasta sumar en ekkert varð úr því.
Íbúakosning
Frá því að það var ljóst að ekki yrði af afhendingu á tilsettum tíma hefur upplýsingagjöf um í hvaða farvegi verkefnið er, hvernig það verður útfært og hvort það verður af því eitthvað rask, verið afar takmörkuð. Umræða í staðarmiðlum og hjá bæjarbúum var kominn á það stig að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því á fundi bæjarstjórnar í mars, að málið færi í íbúakosningu. Töldum við að þannig skera úr um hvort vilji væri hjá bæjarbúum fyrir verkinu. Það myndi þá knýja meirihlutann til að gefa í og kynna verkefnið og umfang þess betur.
Líflegur fundur
Atburðarás síðasta fundar var nokkuð pólitískari en oft hefur sést á kjörtímabilinu. Meirihlutinn fann sig knúinn til að veita þessu útspili okkar í mars mótstöðu og stilltu þau upp afar stóru skipulagsmáli upp á undan málinu um listaverkið. Málið var tvíþætt. Fyrri tillagan gekk út á að flýta áformum um uppbyggingu á þremur svæðum undir íbúðabyggð sem áætlað hafði verið að ráðast í eftir 2035.
Í seinni tillögunni lögðu fulltrúar meirihlutans til íbúakosningu samhliða næstu Alþingiskosningum um það hvort hefja ætti uppbyggingu á nýja-hrauninu sunnan við FES-ið. Allt eru þetta góð mál sem við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðum eftir frekari kynningu á til þess að við gætum tekið upplýsta afstöðu til þessara tillagna og varð meirihlutinn við því.
Klækjabrögð og fjör
Hér beitti meirihlutinn krók á móti bragði til að hefna tillögu okkar um íbúakosningu vegna listaverksins, sem þau töldu ómaklega, þar sem þau voru ekki upplýst um hana fyrir fund. Tillagan um hvort kjósa ætti um uppbyggingu á nýja-hrauninu var svo leið til að sýna fram á að meirihlutinn væri opinn fyrir íbúakosningum þrátt fyrir að þau kæmu til með að hafna okkar tillögu um slíkt hið sama. Það er líka betra seint en aldrei að meirihlutinn standi við sín 6 ára gömlu kosningaloforð um frekari aðkomu bæjarbúa að málum í gegnum íbúakosningar.
Afstaða mín til málsins
Ég set mig ekki á móti því að einn færasti og þekktasti listamaður þjóðarinnar, sem er einnig þekktur um allan heim, geri listaverk til þess að minnast gossins. Ég tel það einmitt mikla vítamínsprautu fyrir ferðaþjónustuna því listatúrismi er raunverulegt fyrirbæri. Verk eftir Ólaf Elíasson hafa gríðarlegt aðdráttarafl og mun það án nokkurs vafa draga til Eyja efnaða túrista. Þess vegna samþykkti ég að við færum í þessa vegferð á sínum tíma. Einnig hafði ég uppi væntingar eftir samskipti mín við þá sem voru að keyra verkefnið áfram að frekari upplýsinga væri að vænta eftir því sem nær drægi skilum. Nú eru komnir 9 mánuðir frá því að skilin áttu að eiga sér stað og hefur upplýsingagjöfin verið engin síðan að við samþykktum að fara í verkið.
Færibandið þarf að vera í gangi
Í mínum huga er það ekki nóg að um sé að ræða heimsþekktann listamann til að ég spyrji ekki spurninga. Sama á við um aðra bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Kröfur um upplýsingagjöf í jafn stóru máli þar sem almannafé er undir og ljóst að eitthvað rask verður á náttúru má upplýsingagjöfin ekki vera af listrænum toga. Upplýsingarnar þurfa að koma jafnóðum eftir færibandinu en ekki bara einhvern tíma. Auðvitað getur öllum orðið á en það er eðlileg krafa í svona stóru máli að halda bæjarfulltrúum og íbúum vel upplýstum.
Höfundur
Skráðu þig á póstlistann
og fáðu nýjustu pistlana beint í æð