Höfundur:
Gísli Stefánsson
Viðfangsefni:

Fall ríkjandi stjórnvalda víðsvegar um heiminn og samskiptamiðlar

Árið 2024 var ár kosninga. Aldrei í sögu heimsins hafa jafn margir gengið að kjörborðinu ein einmitt á nýloknu ári. Heimurinn hefur breyst hratt á undanförnum árum og ekki má búast við öðru eftir að ríkjandi stjórnvöld féllu um heim allan að þær breytingar muni aukast enn frekar. Samskiptamiðlar eiga þar gríðar mikinn þátt en stjórnmálaflokkar og stjórnmálafólk hafa eðlilega séð kosti þessara miðla við að koma skilaboðum sínum áfram til kjósenda og þannig vekja athygli á sér. Á bakvið við þetta allt saman er svo reiknirit (e. algorithms) sem hafa áhrif á umferðina á miðlunum, út frá gæðum þess efnis sem notendur láta frá sér og hvaða áhrif efnið hefur á aðra notendur.

Ráðandi öfl að falla víðsvegar 

Undanfarin misseri hafa ríkjandi stjórnvöld fallið í kosningum í mörgum lýðræðisríkjum í hinum vestræna heimi. Þar má fyrst nefna fall Demókrata í Bandaríkjunum, ekki aðeins í slagnum um Hvíta húsið heldur einnig í báðum deildum þingsins. Íhaldsmenn töpuðu í Bretlandi eftir 14 ára samfellda stjórnarsetu og ríkisstjórn Mark Rutte í Hollandi tapaði stjórnarmeirihluta sínum á þingi í júní á þessu ári. Stjórn hans féll svo endanlega í kosningum í september þegar hinn nýi Bændaflokkur vann stórsigur. Vinstrimenn féllu á Spáni í júní sl. og hægrimenn undir forystu Alberto Núñez Feijóo mynduðu nýja ríkisstjórn. Þar að auki má nefna að á undanförnum tveimur til þremur árum hafa stjórnir fallið í Svíþjóð, Ítalíu, Ísrael og nú er ljóst að stjórnin í Þýskalandi er fallin og boðað hefur verið til kosninga í febrúar á næsta ári. Nærtækasta dæmið er svo að sjálfsögðu nýafstaðnar kosningar hér á landi þar sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna féll. Reyndar hafði ekki verið búist við öðru en að stjórnin félli en samstarfið hafði verið frekar styrkt í nokkurn tíma. 

Hraði og stutt athygli

Í heimi samskiptamiðla er keppnin um athygli mun harðari en áður. Þó að upplýsingar takmarkist ekki lengur við mínútufjölda í útvarpi og sjónvarpi og pláss á síðum dagblaða þá er ljóst að efnið er mun meira en mun óreiðukenndara. Í þannig umhverfi hafa þeir sem hafa sem minnstu að tapa yfirleitt pálmann í höndunum og í pólitíkinni eru það þeir sem eru ekki við stjórnvölin. Nýafstaðnar kosningar hér á landi eru gott dæmi um þetta því þeir sem enda á að mynda ríkisstjórn eiga það langflestir sameiginlegt að hafa enga reynslu af því að stýra þjóðarskútunni. Kristrún Frostadóttir, nýr forsætisráðherra er kröftugur stjórnmálamaður sem og Inga Sæland sem landaði ótrúlegum kosningasigri. Þorgerður Katrín og hennar fólk náði ágætlega til yngri kjósenda enda er kominn töluverður tími frá því að hún sat í ríkisstjórn og hennar verk á þeim tíma ekki í huga kjósenda. Allar þessir stjórnmálamenn hafa þó verið þátttakendur í frekar slappri og afkastalítilli stjórnarandstöðu undanfarin ár. Hvort það er það sem raunverulega í þeim býr er eitthvað sem á eftir að koma í ljós á næstu mánuðum. Það er þó ljóst að það er mun auðveldara að segja til um hvernig betur megi fara með stjórn landsins en að framkvæma sjálfur.

Grasið grænna hinu megin?

Hraðinn og krafan um eitthvað nýtt og fersk fer illa saman við íhaldssemina í stjórnkerfinu. Tafir á einföldustu málum eru hluti af hinu pólitíska ferli. Það þarf allt að fara í gegnum embættismenn, nefndir, þing og ráðherra áður en hægt er að hefjast handa. Fjöldi flokka hefur svo ekki auðveldað vinnuna og því eiga umdeild og mikilvæg mál til að þynnast út í meðförum þingsins. Hraðinn og óþolinmæði í samfélagi leyfir þetta hins vegar ekki og ef stjórnir ná ekki árangri er þeim refsað og nýjir aðilar taka við sem þurfa að ná árangri með hraði svo þeim verði ekki refsað í næstu kosningum. Grasið virðist því alltaf grænna hinu megin. Það er svo þekkt að þetta hafa þeir sem ekki aðhyllast vestræn gildi reynt að nýta sér til að hafa áhrif á kosningar í hinum vestræna heimi.

Hin tímabundna lausn

Aðrir hafa valið að rækta sitt eigið tún og gildir það einu hvort sem er um að ræða nýja pólitíkusa eða eldri og reyndari. Flokkslínurnar eru sífellt að dofna og fleiri og fleiri telja það ekki eftir sér að ganga í hóp þeirra sem sumir kalla fjöllistamenn, þ.e. hafa setið á framboðslistum fleiri en eins flokks.

 

Höfundur

Gísli Stefánsson

Skráðu þig á póstlistann

og fáðu nýjustu pistlana beint í æð