Ég býð mig fram í 4. sætið
Framundan eru þingkosningar og Sjálfstæðisflokkurinn er farinn á fullt. Ég hef undanfarin 2 ár setið sem bæjarfulltrúi fyrir flokkinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja og í ráði árin 4 þar á undan og fengið að njóta þessa að læra þar af mér reyndara meira fólki. Þegar ég bauð mig fram í prófkjör sem fór fram hér vorið 2o22 þá má segja að ég „hafi komið sjálfur að máli við mig“ eins og einn góður forsetaframbjóðandinn komst að orði en í þetta skipti er ég að finna fyrir stuðning frá röddum innan og utan flokksins sem mér þykir ómögulegt að neita. Ég hef því ákveðið að bjóða mig fram í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í röðun sem fer fram á kjördæmisþingi nk sunnudag, 20. október.
Ég hef haft mikinn áhuga á stjórnmálum og samfélagsmálum alla tíð og hefur sá áhugi aðeins aukist með aukinni þátttöku í stjórnmálum og flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins. Ég hef grætt mikið á bæjarfulltrúastarfinu þó það kjörtímabil sé rétt hálfnað og séð að enn frekari þátttaka í stjórnmálum getur bara hjálpað mér við að hjálpa samfélaginu mínu hér í Eyjum. Einnig hefur starfið veitt mér góða innsýn inn í stöðu kjördæmisins sem eyjarnar eru hluti af, og má þar helst nefna bága stöðu samgöngumála víða um kjördæmið. Þar er ekki staðan aðeins bagaleg í Eyjum heldur er mál Ölfusárbrúarinnar á erfiðum stað, 13 einbreiðar brýr á þjóðvegi 1 til Hornafjarðar, efnislitlir malarvegir í uppsveitum, og svo má lengi telja.
Ég elska líka samfélagið mitt hér í eyjum og vil sjá það blómstra áfram sem hluti af raunhagkerfinu. Það mun ekki ganga nema að orkumálin komist í þann farveg sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að vinna að og rannsóknir á göngum hefist sem allar fyrst. Heilbrigðismálin og öryggi vegfarenda í kjördæminu standa enn höllum fæti þar sem enn á eftir að koma í gagnið sjúkraþyrlu á suðurlandi, verkefni sem var búið að fjármagna fyrir heimsfaraldur en var sett á ís.
Ég heiti því að starfa að þessum verkefnum ásamt öðrum mikilvægum fyrir Vestmannaeyjar, Suðurland og landið allt.
Höfundur
Skráðu þig á póstlistann
og fáðu nýjustu pistlana beint í æð