Tregða í orkumálum gæti fellt kerfið
Það er undarlegt að hugsa til þess að þau grænu orkukerfi sem byggð voru hér á landi á miðri síðustu öld séu að drabbast niður vegna lagaramma og leyfisveitingakerfis sem við höfum búið til sjálf. Það er hættulegt kerfinu var á sínum tíma byggt upp af framsýni og stækkunarmöguleika í huga.
Uppbygging rekin með gjöldum notenda
Það sem hefur haldið kerfinu okkar gangandi, jafnt hvað varðar orkuöflun og flutning orkunnar eru afnotagjöldin. Tekjumódelið gengur út á að nýta innkomu til uppbyggingu kerfisins sem er að allra mati mjög arðbært.
Nú þarf að hafa hraðar hendur
Tækninni fleytir fram á ógnar hraða innan orkugeirans. Ég fór í létta skoðunarferð um netheima og komst að því að búnaður sem uppfyllt framleiðslu á þeirri orku sem heimili mitt þarf kostaði mig á milli 200.000 – 300.000 krónur. Um var að ræða litlar birtuorkusellur og nettar vindmyllur sem ég get staðsett á þakinu á húsinu mínu. Miðað við þessar tölur ætti ég að vera búinn að borga upp búnaðinn á ca tveimur árum.
Verð á heitu vatni hér í Vestmannaeyjum er einnig svívirðilegt þessa dagana og heyrir maður reglulega sögur af fólki sem hefur verið að skipta sínu hefðbundna hitaveitukerfi út fyrir loft í vatn varmadælur. Fólk er þannig að ná hitaveitukosnaði sínum niður um rúmlega helming með frekar litlum tilkostnaði sem greiðist upp hratt.
Við getum selt inn á kerfið
Sú raforka sem heimaorkuver kann að framleiða umfram þörf heimilisins hefur framleiðandinn svo kost á að selja inn á almenna kerfið til að létta undir með orkuframleiðslunni. Þetta er jákvætt fyrir þá sem hafa bolmagnið til og þá sem kunna að vanta aukna orku en síður jákvætt fyrir þá sem þurfa að treysta á almenna kerfið og viðhald þess því þetta vinnur gegn tekjumódelinu. Ekki er þó allt eins og blómstrið eina þegar kemur að svona heimakerfum því viðhaldskostnaður vegna þess er að sjálfsögðu allur eigandans. Einnig er ekki alltaf hægt að treysta á næga birtu eða heppilegan vind til þess að afla orku og því nauðsynlegt að hafa aðgang að almenna kerfinu.
Hvataskortur – orkuskortur
Mitt mat er að Ísland er og verður betra sett með því að hið almenna raforkukerfi sé sterkt og lifi af þær hörmungar sem að því steðja. Til þess þarf að snúa við hvötunum. Orkuverð og orkuskortur kallar á meiri innviðauppbyggingu en hún gengur svo hægt að fólk og fyrirtæki munu innan tíðar leitast við að verða sjálfu sér næg og útvega sér orkuna sjálf með hjálp tækninnar. Það dregur úr tekjum orkukerfisins sem aftur hægir á fjárfestingarmöguleikum þess. Þá þarf ríkið að stíga inn í með fjármagni sem annars myndi nýtast til samgangna, heilbrigðisþjónustu og annarra mikilvægra þátta sem við erum ekki eins sterk í. Innviðauppbyggingin þarf því að snúa við þessum hvötum og það hratt.
Tengja þarf framhjá lagabákninu
Eina leiðin er að tengja framhjá núverandi löggjöf með nýjum lögum sem stytta leiðirnar. Vanda þarf til verka þannig að umhverfið fái að njóta vafans þar sem það á við en ekki þannig að uppbygging verði heft og klemmd í kæruferlum svo árum skipti. Sterkt orkukerfi er ein af stærstu forsendum framfara eins og saga okkar kennir okkur.
Höfundur
Skráðu þig á póstlistann
og fáðu nýjustu pistlana beint í æð