Höfundur:
Gísli Stefánsson

Þegar innviðirnir eru látnir mæta afgangi

Við treystum á að ríki og sveitarfélög tryggi innviðina sem þeir bera ábyrgð með skattfé okkar borgaranna. Við borgararnir viljum svo fá frið svo við getum nýtt tækifærin sem best og þannig skapað okkur gott líf og umleið nægar tekjur fyrir okkur sjálf og skattfé til þess að ríki og sveitarfélög geti tryggt fyrrnefnda innviði. Ábyrð sveitarfélaga er mikil gagnvart íbúum, en ég tel að við getum verið sammála um að ábyrgð Reykjavíkur sem höfuðborgar gagnvart íbúum annars staðar á landinu sé einnig mikil.

Pólitíkin flækir málið

Nú sjáum við það gerast í Reykjavík að meirihlutinn í borginni er fallinn eftir að borgarstjórinn Einar Þorsteinsson sleit samstarfinu og virðast nýleg málefni flugvallarins, sem er sannarlega mikilvægur innviður fyrir landsbyggðirnar vera hluti af þeim slitum. Einhver tregða er í þeim sem vilja flugvöllinn burt, að fella tré í Öskjuhlíð sem ógna öryggi í flugsamgöngum við borgina. Því hefur einni af brautum vallarins verið lokað þar til ráðið hefur verið bót á málum.

Flugvöllurinn er öryggistæki

Flugvöllurinn er sannarlega lífæð, ekki aðeins í samgöngum heldur í bókstaflegri merkingu fyrir þá er þurfa á bráðalækningum að halda, því hann þjónar sjúkraflugi af landsbyggðunum. Því þarf að fella trén sem ógna flugöryggi hið fyrsta og tryggja þannig samgöngur og sjúkraflutninga í gegnum völlinn.

Við verðum að bregðast við

Sjúkraflug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja er gríðarlega mikið en þau voru vel yfir 100 á síðasta ári, u.þ.b. 20% af öllu sjúkraflugi í landinu. Þar ráða landfræðileg lega eyjanna, litlar flugsamgöngur og mönnunarvandi HSU í Vestmannaeyjum miklu um. Ef við horfum til aðstæðna annars staðar í Suðurkjördæmi er vert að nefna ástandið í Austur-Skaftafellssýslu en þar fer um gríðarlegur fjöldi ferðamanna, en þar ræður Jökulsárlón miklu um. Bráðaviðbragð er talið í klukkutímum og mönnun í heilbrigðiskerfi mjög ábótavant. Vegna staðsetningar má líta á Höfn í Hornafirði sem eyju vegna þess hve langt er í næsta byggða ból bæði til austurs og vesturs. Það er því ekki á það bætandi að sjúkraflug skerðist með þessum hætti.

Upp á líf og dauða

Mikilvægi trjánna í Öskjuhlíðinni er ekkert í samanburði við líf þeirra sem þurfa á bráðaþjónustu að halda. Ábyrgð þeirra sem með málefni flugvallarins fara er því gríðarleg.

Höfundur

Gísli Stefánsson

Skráðu þig á póstlistann

og fáðu nýjustu pistlana beint í æð