Þakkir og uppgjör við kosningar
Ég vil byrja á því að þakka einlæglega fyrir þann stuðning sem ég fann í kosningabaráttunni og undanfara hennar. Hann var miklu meira en ómetanlegur. Öll símtölin og samtölin nærðu mig sama hvort þau gáfu í skyn sterkan stuðning eða þegar ég þurfti og náði að snúa fólki á mitt band. Ég finn að það á vel við mig að tala fyrir sannfæringu minni og því ætla ég að halda áfram.
Varnarsigur Sjálfstæðisflokksins
Miðað við það afhroð sem flokknum var spáð í könnunum og það fylgishrun sem hinir stjórnarflokkarnir máttu þola er ekki annað hægt en að tala um sterkan varnarsigur hjá Sjálfstæðisflokknum. Kosningavélin mallaði allan tímann og gaf hressilega í síðustu vikuna og sýndi það hve samhentur hópur sjálfstæðismanna er um allt land. Niðurstaðan í Suðurkjördæmi var þó óneitanlega vonbrigði. Við náðum ekki markmiðinu sem var að eiga fyrsta þingmann kjördæmisins í Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem og að Ingveldur Anna Sigurðardóttir, frambjóðandi í 3. sæti listans næði inn á þing.
Það sem niðurstaðan segir okkur
Flokkur fólksins hafði okkur hér í Suðurkjördæmi og verður hér að segjast að þar á leiðtogi þeirra, Inga Sæland, stóran þátt, en hún hefur með sínum málflutningi og hvernig hún hefur sannfært þá hópa sem hún talar inn sótt til sín kjósendur sem alla jafna hafa staðið með Sjálfstæðisflokknum. Hér er fyrst og fremst um að ræða eldra fólk og í einhverjum tilfellum öryrkja sem upplifa að Sjálfstæðisflokknum hafi ekki tekist að jafna leikinn hvað varðar kjaramál þeirra.
Gott að eldast – Áhyggjulaust ævikvöld
Kosningaáherslur Sjálfstæðisflokksins til eldra fólks í samfélaginu snérust fyrst og fremst í þessum kosningum um að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði eldri borgara og stuðla þannig að vellíðan þeirra. Lofað var að gera starfslok sveigjanlegri þar sem ekki aðeins aldur ráði til um starfslok heldur einnig áhugi og færni einstaklinga. Hækka átti frítekjumark almannatrygginga upp í 350 þúsund á mánuði til þess að minnka skerðingar sem og að hækka almennt frítekjumark ellilífeyris. Einnig vildi Sjálfstæðisflokkurinn gera fólki kleift að búa lengur heima og auka aðgengi að fjölbreyttri og sveigjanlegri dagdvöl fyrir eldri borgara til að auka öryggi þeirra og draga úr félagslegri einangrun.
Þetta virðist ekki hafa virkað á meðan að loforð Ingu Sæland um að taka árlega 90 milljarða út úr lífeyrissjóðakerfinu, og er að mínu viti glæpur við okkur sem erum nú að safna okkur lífeyri, virtist tryggja Flokki fólksins atkvæði þessa hóps í meira mæli en við bjuggumst við.
Áhyggjur af rödd eyjanna
Eins og ég sagði við marga í kosningabaráttunni er helsti slagur hér í Eyjum ekki innbyrðis, heldur að ríkisvaldið tryggi hér nauðsynlega innviði. Við erum vön að redda okkur og það sést vel á þjónustustiginu. Við viljum bara að ríkið geri sitt í innviðunum og láti okkur svo í friði á meðan að við sköpum verðmæti og þjónustum hvert annað og aðra. Það er því mitt mat að þessar kosningar hafi þurft að skila sterkri rödd frá okkur inn á þingið. Hér geri ég ekki lítið úr vinum mínum Víði Reynissyni og Karli Gauta Hjaltasyni sem munu án efa reynast okkur vel en þeir, sem oddvitar sinna lista og hugsanlega ráðherraefni sinna flokka, munu ekki hafa sama sveigjanleika til að sinna Eyjum í því mæli sem ég tel nauðsynlegt. Skyldur þeirra munu liggja víðar.
Eyjar þurfa meiri stuðning
Hér er vöxtur og hér er að verða til ný atvinnugrein með laxeldi á landi. Það mun án efa styrkja okkur en veikar flugsamgöngur, óvissa í sjósamgöngum, yfirvofandi vatnsleysi, orkuskortur í landinu og veik grunnþjónusta á heilsugæslu og hjá lögreglu eru þung áhyggjuefni sem þarf stanslaust að vera að minna á.
Bæjarstjórnin hefur staðið saman í þessum málum og það hefur skilað einhverjum árangri. Flugið er að fara aftur af stað þó takmarkað sé og von er á tveimur nýjum rafstrengjum til Eyja sem borið geta orkuþörfina eftir orkuskipti. Það er hins vegar ekki nóg og því þarf okkar rödd að vera sterkari inni á Alþingi Íslendinga.
Höfundur
Skráðu þig á póstlistann
og fáðu nýjustu pistlana beint í æð