Skatta- og skerðingalausir styrkir til stjórnmálaflokka
Það hriktir í stjórnarsamstarfi sem hefur varla hafist. Styrkir til stjórnmálaflokka frá okkur borgurum þessa lands hafa verið ofgreiddir á undanförnum árum. Þar er ljóst að Flokkur fólksins hefur fengið um 240 milljónir greiddar án þess að standast kröfur lagabókstarfsins og þeim ætla þau ekki að skila. Fleiri flokkar voru á þessum slóðum þegar ný gjöld tóku gildi í upphafi árs 2022 en flestir þeir brugðust við í samræmi við kröfur ríkisins. Það gerði Flokkur fólksins hins vegar ekki enda voru þau „ekkert að stressa sig á þessu“.
Stjórnmálaflokkar þurfa fæði, klæði og húsnæði
Nú eru lögspekingar fjármálaráðherra búnir að komast að þeirri niðurstöðu að ráðuneytið brást, sem er auðvelt að segja, enda gerðist þetta víst á vakt fjármálaráðherra fyrri ríkisstjórnar. Þess vegna þurfi þeir stjórnmálaflokkar sem fengu ofgreitt, ekki að greiða til baka. Það þjóni heldur ekki tilgangi laganna ef stjórnmálaflokkarnir fari á hausinn vegna styrkja sem eiga einmitt að styrkja þá. Það sem hins vegar er ekki að finna í áliti lögfræðinga ráðuneytisins er að það hriktir í stjórnarsamstarfinu og því pressan mikil á að málið verði leitt í jörð.
Skatta- og skerðingalausir styrkir
Flokkur fólksins er stofnaður um það verkefni að styðja þá sem þurfa stuðninginn. Í þeim tilgangi fellst að nýta sameiginlegu sjóðina og taka fé af lífeyrissjóðunum (líka almannafé) til þess að létta undir. Þessi félagshyggjuhugsun á þann rétt eins og flestar aðrar stjórnmálaskoðanir að falla í dóm kjósenda í kosningum en þá hefði maður haldið að einhver innistæða yrði að vera fyrir loforðunum. Vegna persónuleikaeinkenna Ingu Sæland og fyrir hvað hún stendur virðist hún fá töluverða forgjöf hjá ákveðnum hópum, þó hún standi ekki við loforð til þeirra. Einmitt þeim hópum sem þurfa hvað mest að reiða sig á almannafé. Þeim sömu og eru krafðir hart um endurgreiðslu og verða fyrir skerðingum ef þeir fá ofgreitt úr sameiginlega sjóðnum. Er þeim sama?
Höfum við það kannski of gott?
Kannski er ekki svo slæmt að búa á Íslandi. Hér er nóg atvinna, gengi krónunnar er stöðugt m.a. vegna þess að ferðaþjónustan er sterk, útflutningur á fiski og hugverkum er sterk stoð og við lifum á tækniöld þar sem sem orka og hugvit skiptir máli. Við eigum nóg af því ef að við losum um manngerð höftin. Velferðarkerfið okkar er sterkt á alþjóðlega vísu og grípur utan um þá sem á þurfa að halda, þó eflaust megi víða bæta úr. Kannski skipta þessir hundruðir milljóna því ríkissjóð ekki máli, enda bara smáaurar.
Það á hvort sem er að hækka skatta
Ef hér er svona gott að búa og smjör drýpur af hverju strái hlýtur að vera nóg af pening þarna úti sem hægt er að skattleggja. Afsakið, ég meina að það er hægt að vera með aðhald á tekjuhliðinni eða styrkja tekjustofna ríkisins. Það er lausn alls í hugum félagshyggjufólks því það er best að ríkið útdeili gæðunum svo rétt sé gefið. Þá skipta hundruðir milljóna sem lagðar eru inn á félagasamtök/stjórnmálaflokka ekki miklu máli.
Höfundur

Skráðu þig á póstlistann
og fáðu nýjustu pistlana beint í æð