Höfundur:
Gísli Stefánsson
Viðfangsefni:

Hvernig biskup vil ég?

Framundan eru kosningar til biskups sem fara fram 11. – 16. apríl og ljóst að þeir þrír skeleggir frambjóðendur sem tilnefndir voru af prestum og djáknum veita hver öðrum góða keppni.

Veikt embætti?

Kirkjuþing hefur á undanförnum árum, með lagasetningum dregið nokkuð úr vægi biskups, samhliða þeim breytingum sem ríkið hefur gert á fjárveitingum beint til kirkjunnar. Biskup hefur í dag fyrst og fremst það hlutverk að vera leiðtogi presta á meðan að hann deilir hlutverki sínu sem leiðtogi kirkjunnar með kirkjuþingi. Þetta er í takt við þær breytingar sem við höfum séð í almennri stjórnsýslu sem einkennast helst að því að dreifa valdinu niður til embættismanna og undirmanna þeirra og þannig draga úr vægi hæstu embætta. Þetta hefur hins vegar boðið hættunni heim því með væginu fylgir ekki endilega ábyrgðin, eins og við þekkjum í þjóðlendumálinu þar sem lagasetning hefur gert ráðherra erfitt fyrir að vinda ofan af ruglinu. 

Jákvæðu þættirnir

Það sem þó er gott við nýjar lagasetningar er það að biskup er ekki æviráðinn heldur er hann bundinn við sex ára kjörtímabil. Það hjálpar við að yngra fólk taki að sér embættið sem og að hægt er að leggja það í dóm kjósenda með reglubundnum hætti hvort biskupinn sé verður áframhaldandi setu í embætti. Einnig er það eðlilegri útgönguleið úr embætti sem óneitanlega setur stórt mark á þá sem gegna því.

 

Kirkjan er fólk

Nýr biskup þarf að hafa það í huga að kirkjan er í grunninn fólk sem myndar söfnuði. Söfnuðurnir eru þeir sem tapa á því þegar fólk finnur sig knúið til að skrá sig úr Þjóðkirkjunni en ekki Biskupsstofa, Kirkjuþing eða biskuparnir. Í mínum huga má rekja þá fækkun sem hefur átt sig stað í kirkjunni til tveggja megin þátta. 

 

Of lengi að beygja

Í fyrsta lagi að kirkjan er of lengi að beygja af leið. Hún stendur of lengi á úreltum kreddum og tekur of seint á málum. Það hefur orðið til þess að fjölmiðlar eru fljótir til að taka upp neikvæð mál innan kirkjunnar og vilja ekki snerta á því sem jákvætt er. Þar má nefna kynferðisbrota mál frá fyrri tíð sem tók langan tíma að taka á þannig að sátt um það ríkti, hallarbyltingar í sóknarnefndum, jafnréttisbrot í vali á prestum o.s.frv. Dæmi um jákvæð mál eru fjölmenn æskulýðsmót á vegum kirkjunnar með 600 til 800 þátttakendum sem engin leið er að vekja athygli í stóru miðlunum. 

 

Hræðsla við að taka pláss

Í samfélagi nútímans má engan styggja og kirkjan hræðist slíkt. Hún vill sjaldan taka afstöðu af hræðslu við að umfjöllunin verði slæm. Ég þekki það þó sjálfur af samtölum mínum við unga sem aldna innan kirkjunnar að þegar að rætt er um kirkjuna og verk hennar í ræðu og riti á opinberum vettvangi eru jákvæðu viðbrögðin mun meiri en þau neikvæðu.

Ein stærstu mistök síðari ára er það að grípa ekki megin stefið í heimsfaraldrinum og nýta sér það „Gætum okkar minnstu bræðra“. Skilaboð frá Biskupsstofu var í raun að við ættum að loka og hafa okkur hæg því ekki mátti koma upp enn einn skandallinn í kirkjunni. Að mínu mati hefði átt að stökkva á tækifærið og hjálpa prestum að predika þetta stef. Sett yrði upp samstillt átak þar sem væri sýnilegt að kirkjan væri að hugsa um þessi mál sem einn hugur og þannig vinna upp ímynd kirkjunnar. Prestar unnu þó flest allir með þetta stef hver í sínu horni sem er vel en það kostaði sýnileika kirkjunnar að hún í heild sinni tók ekki af skarið.

 

Áherslumál biskups

Fyrst og fremst þarf biskup að auka sýnileika þeirra þátta kirkjunnar sem eru fólki ósýnilegir. Það er hlutverk kirkjunnar að taka á móti og hjálpa öllum sem til hennar leita óháð því af hvaða sauðahúsi þeir koma. Það er nokkuð ósýnilegt. Einnig þarf hlutverk presta sem sálgæsluaðila að vera sýnilegra. Stuðningur kirkjunnar og safnaðanna víða um land við fátæka og bágstadda í samfélaginu þarf einnig að vera sýnilegri. Það er ekki sama hvernig þetta er framkvæmt en nútímatækni og þekking leysir þetta á einfaldan máta. 

Í þessu eru meiri tækifæri fyrir vöxt kirkjunnar en í umræðum um umhverfismál eða bágstadda annars staðar í heiminum. Kirkjan þarf að vera eitthvað sem skipta íbúa þess lands máli og snerta þau beint. Það þarf að vera númer eitt. Umhverfismálin eru líka nauðsynleg en þau eru ekki mikilvægust því fólks sem hefur áhuga á umhverfismálum gengur ekki í kirkjuna þeirra vegna. Það fólk gengur í sérstök umhverfissamtök. Sama má segja um bágstadda annars staðar. Við erum nú þegar með Hjálparstarf kirkjunnar sem er þegar að gera frábæra hluti í þeim málaflokki en við þurfum að auka enn frekar sýnileikan á því sem Hjálparstarfið og söfnuðurnir í landinu eru að gera fyrir þá sem hér búa svo að fólkið sem viljum fá inn í kirkjurnar tengi við hana.

 

Sýnileiki kirkjunnar og grasrótin númer eitt

Byggja þarf um grasrót og viðhalda henni. Fólk sem tengir ekki við kirkjuna er ekki endilega trúlaust. Flestir þeir sem eru ekki þar eru í öðrum trúfélögum eða sækja sitt andlega jafnvægi í hugleiðslu, jóga eða eitthvað annað sem vekur það til umhugsunar. Depurð og einmanaleiki fer vaxandi í heiminum með aukinni fjarlægð milli fólks sem fæst með samskiptamiðlum og ljótir umræðu sem þar grasserar. Því eru því mikil tækifæri í því að sækja fólk á öllum aldri inn í opna og sýnilega kirkju sem er viðeigandi fyrir nútímann en um leið er óhrædd við að tjá sig um mikilvæg samtímamál sem hefur áhrif á þjóðina. Biskup sem hefur þetta að leiðarljósi er biskupinn minn.

 

Höfundur hefur kosningarétt í biskupskosningum og starfar hjá Landakirkju og Kirkjugarði Vestmannaeyja

Höfundur

Gísli Stefánsson

Skráðu þig á póstlistann

og fáðu nýjustu pistlana beint í æð