Er orði „sjávarútvegur“ blótsyrði?
Þegar ég var peyji var mér kennt að fýlan í loftinu væri peningalykt því bræðslurnar voru að búa til verðmæti. Lærði ég því nokkuð fljótt að hér væri verið að ræða um lifibrauð fólks og að samfélagið nyti góðs af því að í sveitarfélaginu mínu væri sterkur sjávarútvegur. Umræðan í sumar og í raun undanfarin ár hefur hins vegar mikið snúið til þeirrar orðræðu sem varð til upp úr hruninu 2008. Ákveðinn hópur sem hefur takmarkaðan skilning á mikilvægi sjávarútvegs og hvað hann hefur að segja í atvinnulífi og útflutningstekjum þjóðarinnar hefur haldið þessari fórnarlambsumræðu á lofti sem einkennist af spurningunni: „Af hverju fæ ég ekki mitt af auðlindinni?“ Staðreyndin er þó sú að kerfið í kringum greinina skaffar þjóðarbúinu nú þegar gríðarlegar tekjur í formi virðisauka, tekjuskatts, ýmiskonar furðulegra gjalda sem ríkið tekur af hinu og þessu sem og veiðigjalda sem þegar eru greidd af auðlindinni.
Markmið veiðigjalda að stuðla að frekari rannsóknum
Fiskveiðikerfið á að heita sjálfbært, hvað sem það nú þýðir og ein forsenda þess er þekking á stöðu fiskistofna og lífríkisins í sjónum. Eitt megin markmið laganna um veiðigjald er að tryggja fjármagn til rannsókna á auðlindinni. Ekki er hægt að segja að ríkið standi við það því framlag til rannsókna er í engu samræmi við þann arð sem ríkið tekur sér af auðlindinni.
Veiðigjaldið skaðlegt smærri sveitarfélögum
Augljósar afleiðingar aukina veiðigjalda er að minni fyrirtækin munu fljótt og örugglega gefast upp og verða yfirtekin af þeim stærri. Það mun því enn auka á vanda smærri sveitarfélaga í að halda í sína byggð þar sem lögin og gjaldið munu óhjákvæmilega draga úr atvinnu og uppbyggingu á landsbyggðunum.
Útflutningstekjur verða til úti á landi
Staðreyndin er hins vegar sú að útflutningstekjur landsins verða meira og minna til úti á landi á meðan að þeim er svo ráðstafað af kjörnum fulltrúum staðsettum í Reykjavík. Í því felst skekkja sem verður seint lagfærð nema að þeir sem fara með völd sýni að þeir skilji hvaðan peningarnir koma og hvað hefur verið til kostað til þess að afla þeirra. Það er þeirra verk að tala upp atvinnugreinar hér á landi.
Höfundur

Skráðu þig á póstlistann
og fáðu nýjustu pistlana beint í æð


