Veikum er alveg sama hver veitir þjónustuna
Frá því undir lok síðasta áratugar hefur verið kallað eftir því að sjúkraþyrla verði staðsett á Suðurlandi. Mikil þörf er á að bæta bráðaviðbragð sem víðast hvar í landshlutanum er óboðlegt, sér í lagi í Vestmannaeyjum en hreint ekki síður í Skaftafellssýslunum þar sem mönnun heilbrigðisstarfsfólks hefur verið einstaklega erfitt viðfangsefni. Stríður straumur ferðamanna um Suðurlandið styrkir svo ákallið enn frekar eftir þyrlunni.
Ráðherra með augu á boltanum – að hluta
Í fyrirspurn minni til Heilbrigðisráðherra sem ég sendi henni þegar ég tók sæti á þingi í maí sl og sem hún svaraði nýlega kemur fram að viðbótarsjúkrabíll hafi verið fjármagnaður til að sinna uppsveitum Árnessýslu og bráðaviðbragðsbíll sé nú staðsettur yfir sumarmánuðina í Skaftafelli. Síðan að svarið barst hefur ráðherra bætt um betur og hefur framlengt samning um sjúkrabíl í Skaftafelli út árið og til stendur að viðhalda þessari þjónustu yfir allt árið í framhaldinu. Þessu ber sannarlega að fagna.
Ráðherra hyggst vilja styrkja sjúkraflug með þyrlum á öllu landinu í heild og vill sérstaklega styrkja Landhelgisgæsluna til að efla sjúkraflug á suðvesturhorninu. Það eitt og sér myndi nýtast Suðurlandi vel. Aðeins einn aðili á að sinna þessu verkefni fyrir landið allt að mati ráðherra.
Er það hagræði og góð þjónusta?
Rekstur Landhelgisgæslunar hefur verið erfiður undanfarin ár eins og kemur fram í greiningu sem Advance ehf. vann fyrir Dómsmálaráðuneytið árið 2023. Það segir okkur það að bæta þarf rekstrarskilyrði gæslunnar svo hún geti með góðu sinnt sínum lögbundnu hlutverkum áður en bætt er við frekari verkefnum.
Sjúkraflug með flugvélum er nú þegar í höndum einkaaðila víða um land og þyrlufyrirtæki hafa sprottið upp sem öflug viðbót við öfluga ferðaþjónustu. Það er því hægt að hefja tilraunaverkefni hér á Suðurlandi mun fyrr en fjárhagsvandræði gæslunnar verða leyst, ef vilji er fyrir hendi.
Getur ráðherra sett sig í spor þjónustuþega?
Það er grundvallaratriði að þeir stjórnmálamenn sem fara með ferðina geti sett sig í spor þeirra sem þurfa að hlýta gjörðum þeirra. Sá sem þarf að nýta þjónustu sjúkraþyrlu er ekki mikið að velta því fyrir sér hvort að hún sé á vegum ríkisins eða einkaaðila. Hann vill einfaldlega þjónustuna eða er jafnvel meðvitundarlaus og getur ekkert sagt um það þá og þegar. Það er því grundvallar atriði að sjúkraþyrlu verkefnið sem hefur verið á ís síðan 2019 komist aftur af stað með fyllsta öryggi íbúa og ferðamanna á Suðurlandi í huga og það sem allra fyrst.
Höfundur

Skráðu þig á póstlistann
og fáðu nýjustu pistlana beint í æð