Skreytingarhugtakið „sjálfbærni“
Eftir að hafa verið í bæjarstjórn í tæp tvö ár og horft á rekstur bæjarins úr því hásæti hef ég lært mikið. Það hefur hjálpað mér að meta betur rekstur á eigin heimili sem og Landakirkju sem ég sé um að reka ásamt öflugu sóknarnefndarfólki. Þetta hefur líka kennt mér að hugtakið sjálfbærni er hugtak sem aðeins er notað til skreytinga, sérstaklega hjá stjórnmálafólki.
Sjálfbærni í raun ómöguleg
Í fyrsta lagi er sjálfbærni aðeins möguleg í fullkomlega lokuðu hagkerfi þar sem ákvarðanir í fjármálum eru ekki ákveðnar út frá hag þeirra sem stjórna eða þeirra sem kjósa, þeirra sem skapa auðinn eða þeirra sem eyða honum heldur algjörlega út frá bestu mögulegu ákvörðunum hvers tíma. Þar er mikilvægt að geta séð framtíðina hnökralaust fyrir sér og vera frír frá öllum þeim áföllum sem umheimurinn kann að senda til þín. Þar með talið sjúkdómum, veðri og öðrum sem náttúran kann að bjóða upp á. Það er nokkuð augljóst að það er fullkomlega ómögulegt, sé mið tekið af áföllum undanfarina ára og í flestum tilfellum þegar eitthvað álíka hefur verið reynt hefur það kostað miklar fórnir og endað með ósköpum.
Sjálfbærni-hugtakið fyrst og fremst pólitískt
Í öðru lagi get ég ekki séð að sérfræðingar í fjármálum eigi upphafið að tengja sjálfbærni hugtakið við fjármál ríkis, sveitarfélag, fyrirtækja og annara smærri eininga. Pólitíkusar eiga fyrst og fremst heiðurinn að því og hefur draumsýnin á sjálfbærum rekstri smitast þaðan í aðra geira.
Ef við skoðum aðeins þetta í samhengi við rekstur Vestmannaeyjabæjar þá er ljóst að sjálfbærni er afstæð þrátt fyrir að sveitarfélagið sé nánast skuldlaust og eigi fyrir því sem gera þarf. Bæjarstjórn hefur ákveðið að ráðast í töluverða innviðauppbyggingu á næstu árum þar sem stækka á Hamarsskóla og færa Tónlistarskólann þar inn, byggja á nýja búningaaðstöðu við íþróttahúsið og leggja gervigras á Hásteinsvöll. Allt eru þetta framkvæmdir hugsaðar fyrir framtíðarkynslóðir bæjarins og að mínu mati nauðsynlegar en þær skila ekki fjárhagslegum arði aftur til sveitarfélagsins fyrr en þessar kynslóðir skila sér aftur til eyja eftir nám og kjósa að setjast hér að. Það gera þau þó sennilega ekki nema að innviðir í vatni, hitaveitu, samgöngum og heilbrigðisþjónustu sé á samkeppnishæfu stigi við önnur samfélög. Meira um það síðar.
Ríkið predikar sjálfbærni um leið og það útilokar hana
Annað dæmi er að sveitarfélög hafa þurft að bíta í það súra epli að taka við málaflokkum frá ríkinu án nægjanlegs samráðs eða fjármagns í samræmi við þjónustukröfurnar sem Alþingi hefur ákveðið. Málaflokkur fatlaðra, málaflokkur þar sem allir vilja gera vel, er skýrt dæmi um þetta. Einnig má nefna rammasamning ríkisins við sveitarfélög um rekstur hjúkrunarheimila. Þegar samningurinn rann út var aðeins stuðst við lágmarks meðgjöf frá ríkinu sem jók kostnað bæjarins gríðarlega við reksturinn. Smæðarálag sem Vestmannaeyjabær fékk greitt vegna smæðar sinnar og fjarlægð frá þjónustu sem önnur sveitarfélög hafa kost á að samnýta var ekki greitt af ríkinu eftir að samningnum lauk og ríkið neitað að semja á fyrri forsendum. Úr varð að bærinn skilaði rekstrinum aftur til ríkisins. Að mínu mati slá þessar æfingar ríkisins á allt sem menn leyfa sér að kalla sjálfbærni í rekstri.
Markaðurinn háður sveiflum
Vestmannaeyjabær á sína sjóði í skuldabréfum sem á að vera frekar örugg fjárfesting. Sveitarfélagið hefur ekki leyfi til að ráðstafa viðhalda eignum sínum innan fjármálakerfisins á annan máta og því lítið hægt að gera þegar skuldabréfamarkaðurinn fór að gefa eftir eftir faraldurinn og eigin rýrnaði töluvert.
Við þekkjum hvaða áhrif heimsfaraldurinn hafði á hagkerfin. Það er enn ein áminning á að sjálfbærni er þvæla. Við styðjumst við krónu sem er háð sveiflum stærri miðla og sveiflurnar því oft miklar. Sem betur fer þó höfum við einhverja stjórn sem verður til þess að við getum sjálf risið upp úr öldudalnum frekar fljót en ef við færum yfir í annan gjaldmiðil myndum við fórna þeirri stjórn. Engin sjálfbærni í boði þá.
Ábyrgur rekstur skiptir öllu
Auðvitað er þó göfugt að stefna að einhvers konar ástandi þar sem hlutirnir virka vel saman og halda þegar áföll dynja á. Það kallast að sýna ábyrga fjármálastjórn og gengur út á að ferlar að mögulegum lausnum séu nokkuð skýrir þegar eitthvað bjátar á. Þeir sem halda utan um rekstur, sama í hvaða formi hann er, þurfa einfaldlega að vera sífellt vakandi yfir rekstrinum og hvernig megi gera hann betri. Það eitt og sér segir mér að ekkert sem kemur við rekstri má líta á sem sjálfbært.
Ég á því erfitt með að taka þá alvarlega sem tala um sjálfbæran rekstur.
Höfundur
Skráðu þig á póstlistann
og fáðu nýjustu pistlana beint í æð