Höfundur:
Gísli Stefánsson
Viðfangsefni:

„Ríki, ætlaru ekki að leggja inn á mig?“

Mér var kennt sem ungum manni að það væri ekkert ókeypis í þessum heimi, það þyrfti að hafa fyrir hlutunum. Mér var líka bent á að ef ég fengið eitthvað gefins hefði einhver annar borgað fyrir það. 

Snúið út úr
Nýlega benti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra á að merkja mætti mikla sóun á þeim gjaldfrjálsu námsgögn sem nemendur í grunnskólum landsins fá. Hún bendir á að erfitt sé að skapa hvata til þess að farið sé vel með hlutina þegar þeir er fríir. Ragnar Þór Pétursson kennari bendir á í athugasemd að það eigi líka við um úlpur barnanna, airpods og dýran varning sem þau fara með í skólann. Dýrir óskilamunir safnist upp í skólum landsins sem enginn sækir og því sé virðingin ekki mikil. Hann segir að sóun á „einkaeigum“ barnanna sé mun meiri í peningum talin en á sameiginlegum eignum skólakerfisins.

Skólamáltíðir og virðing fyrir þeim
Ríkið hefur nú ákveðið að gefa börnunum mínum að borða í skólanum, þ.e. er að segja ¾ af matnum og hefur svo neytt sveitarfélögin til að greiða ¼ í gegnum nýjustu kjarasamninga. Þannig hefur ríkið stillt sveitarfélögunum enn eina ferðina upp við vegg og vegið að sjálfsákvörðunarrétti þeirra. Þessu fagna sumir á meðan að ég og fleiri sem höfum lítinn áhuga á ríkisvæðingu finnst eins og að fyrirferðamikill aðili sé að troða sér inn í gott samband milli mín og kokksins sem nú þegar eldar ofan í börnin mín. Nú er ríkið semsagt farið að hlutast um hvað börnin mín borða.

Kanntu að reikna?
Vitið til, fyrst um sinn verður gott að borða og vandað til verka. En um leið og þeir hjá ríkinu sem reiknuðu út hvað þetta er miklu hagstæðara að gera þetta svona komast að því að þeir kunna ekki að reikna gera þeir allt til að ná niður kostnaðinum með því að draga úr gæðum fæðunnar. Ég sem foreldri get svo lítið sagt, því ég er ekki lengur að borga fyrir þessa þjónustu. Með minni gæðum og því að maturinn er foreldrum og börnum frír hverfur svo virðingin fyrir þjónustunni.
Það allra vitlausasta við þetta er svo það að hjá öllum sveitarfélögum starfar félagsþjónusta sem væri nær að veita auknar fjárheimildir ef það er nóg til í svona vitleysu, til að leysa vanda þeirra sem sannarlega ráða ekki við kostnaðinn við gefa börnum sínum að borða og að kaupa námsgögn.

Virðing fyrir eigum sínum og annarra
Rétt eftir hrun tók ég þátt í að halda æskulýðsmót þar sem tæplega 500 krakkar komu saman. Nokkrir óskilamunir voru eftir mótið og innan við viku eftir að mótið var haldið var búið að sækja alla munina. Meira að segja stöku sokkana sem vantaði í parið. Einum 6 árum síðar tók ég þátt í að halda samskonar mót. Óskilamunirnir voru mun fleiri, sem var kannski eðlilegt því þátttakendur voru um 700 en nánast ekkert af því sem var skilið eftir var sótt. Hér réði efnahagur á hvorum tíma miklu. Þegar skóinn kreppir berum við meiri virðingu fyrir eigum okkar og öðrum.

Enginn munur á einkaeign og sameign í augum ungs fólks
Það sem hinn ágæti kennari, sem ég minntist á hér að ofan, sleppti að nefna er að í augum barnanna er enginn munur á einkaeign og sameiginlegri eign. Þau greiddu ekki sjálf fyrir námsgögnin heldur sveitarfélagið og í flestum tilfellum greiddu þau ekki heldur fyrir einkaeigur sínar heldur líklega foreldrarnir. Það er ekki góð leið til að skapa virðingu fyrir hlutum sama hvort þeir kosti mikið eða lítið. Það hlýtur jú að vera hægt að kaupa nýtt, amk þarf ég ekki að gera það.

Vinnuumhverfi ungs fólks laskað
Aðgengi að vinnu fyrir ungt fólk er nokkuð takmarkað og mun minnka enn frekar með aukinni tækni. Það að hafa tekjur er grundvöllur þess að geta átt sjálfur. Það að vinna fyrir sér sjálfur á ábyrgan máta kennir manni að meta betur fórnina sem liggur að baki þeim hlutum sem maður eignast og kennir manni að sýna hlutunum virðingu.
Ég held að sú breyting að minnka aðgengi barna að vinnumarkaði sem var gerð fyrir ca 20 árum síðan, og var að mörgu leyti réttlætanleg, sé greidd í formi minni virðingar fyrir hlutum og þeirri fyrirhöfn sem þarf til að eignast þá. Það er dýru verði keypt að mínu mati.

Hvar setjum við punkt?
Ef við ætlum að halda áfram að gefa hluti frítt sem megnið af þjóðinni getur greitt fyrir og á að geta greitt fyrir í einu af ríkustu löndum heims endar þetta aðeins á einn veg. Fólk hættir að spyrja sig hvað það getur gert fyrir samfélagið og fer að spyrja með tilætlunarsemi: „Ríki, ætlaru ekki að leggja inn á mig?“

 

Höfundur

Gísli Stefánsson

Skráðu þig á póstlistann

og fáðu nýjustu pistlana beint í æð