Nú mun kosta að henda garðaúrgangi!
Vestmannaeyjar eiga mjög skýr landamæri og landsvæði ekki mikið. Þegar einhver sýnir af sér sóðaskap hér og skaðar umhverfið verður fólk því fljótt áskynja og því tel ég það eitt af okkar meginverkefnum hér í Vestmannaeyjum að búa vel um hnútanna í sorpmálum.
Í hinu stóra samhengi
Flokkun á rusli hér á Íslandi er sannarlega mikilvæg fyrir nærumhverfið og við eigum að gera sem mest af því en í heildarsamhengi heimsins gerir sú flokkun ekki neitt. Stór og fjölmenn lönd eins og Kína og Indland sem annað hvort geta ekki eða vilja ekki taka þátt í að minnka mengun af sorpi slá út öll markmið sem heimurinn hefur sett sér í þessum efnum. Kostnaðurinn við förgun og það að sveitarfélög geti ekki niðurgreitt hann sem skildi er ekki að fara að auka hvata okkar til flokkunar.
Nú kostar að henda garðaúrgangi
Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar var til umfjöllunar ný verðskrá rekstraraðila sorpmála hér í sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í framkvæmda- og hafnarráði bæjarins gerðu athugasemdir við. Í henni kom fram að til stæði að hefja gjaldtöku í endurvinnslustöðinni á hrauninu í mun fleiri flokkum sorps en áður hefur verið. Greiða þarf nú fyrir verðmæt endurvinnsluefni eins og ólitað timbur, garðaúrgangur og málma sem og annan úrgang sem áður var gjaldfrjáls eins og gler, hart plast og litað timbur. Hér virðist einu gilda um hvort magnið sé lítið eða hvort um sé að ræða magn sem talið er í fjölda rúmmetra. Þetta er í engu samræmi við þá verðskrá sem nýr rekstraraðili kynnti nýlega á Akranesi þar sem t.d. málmar og gler eru gjaldfrjáls upp að tveimur rúmmetrum.
Ekki í samræmi við væntingar
Vandinn í þessu máli er í raun tvíþættur. Annars vegar heldur meirihlutinn fram að þessi gjaldskrá hafi legið fyrir á sínum tíma þegar tilboð í rekstur sorpstöðvar hér í Eyjum var samþykkt á síðasta ári. Þessu hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í framkvæmda- og hafnarráði hafnað enda hefðu athugasemdir þeirra varðandi þessar breytingar komið fram á þeim tímapunkti ef svo væri. Hins vegar er hér um að ræða breytingar sem eru ekki neinu samræmi við þau samtöl sem við höfum átt í bæjarstjórn um sorpmálin. Þar hefur það, samkvæmt mínum skilningi, verið meginmarkmið okkar allra að réttir hvatar til flokkunar sé fyrir hendi. Það að þeir sem velja að flokka ekki og henda öllu í blandaðan úrgang finni tilfinnanlega fyrir því í veskinu en þeir sem flokka rétt sé umbunað með lægri kostnaði. Markmiðið var að lækka kostnað við almennt sorp sem var komið úr öllu hófi, en það var í upphafi kjörtímabils milli 60% og 70% alls sorps sem kom til hér í Eyjum. Það mun ekki breytast ef greiða þarf fyrir að skila t.d. gleri inn á móttökustöð sorps. Það mun víða fara beint í almennu tunnuna eins og bæjarfulltrúi Eyþór Harðarson nefndi réttilega á fundinum.
Aðgerða er þörf
Á fyrrnefndum bæjarstjórnarfundi kom það fram í máli meirihlutans að hér lægi að baki löggjöf frá Alþingi sem bindi hendur okkar í þessu máli. Ég tel þó, rétt eins og bæjarfulltrúi Hildur Sólveig Sigurðardóttir nefndi á fundinum að nauðsynlegt sé að finna einhverskonar mörk, t.d. að ekki sé greitt upp að einhverju tilteknu magni sorps líkt og gert er í ofangreindum flokkum á móttökustöð sorps á Akranesi, sem rekin er af sama rekstraraðila. Það hlýtur að vera réttlætanlegt því margskonar úrgangur er flokkaður sem verðmæti. Nauðsynlegt er að finna lausn hið fyrsta því annars mun þessi ráðstöfun óhjákvæmilega skaða umhverfi Vestmannaeyja.
Höfundur

Skráðu þig á póstlistann
og fáðu nýjustu pistlana beint í æð