Höfundur:
Gísli Stefánsson
Viðfangsefni:

Jarðgangafélag að færeyskri fyrirmynd

Bon Scott heitinn, fyrrum forsprakki rokksveitarinnar AC/DC söng um veginn sem hann vildi feta. Hann ætlaði niður þar sem hitinn var hvað mestur því leiðin þangað var engum takmörkunum háð. Enginn stöðvunarmerki og enginn hámarkshraði. Ekki er það í mínum huga eftirsóknarvert ferðalag þrátt fyrir að lagið hafi í gegnum tíðina hlýjað mér um hjartaræturnar enda er þarna á ferðinni eitt magnaðasta rokklag sögunnar.

Blæðandi vegir og dvínandi burðarþol

Vegirnir sem við Íslendingar þurfum að aka er ekkert frekar eftirsóknarverðir. Malbiksblæðingar á Vesturlandi eru merki um óhentugar aðfarir í vegagerð og stórskerða afkomumöguleika svæðisins þar sem verðmætasköpun er háð þungaflutningum. Brýr á Austurlandi höndla ekki þungaflutninga samkvæmt nýjustu úttektum Vegagerðarinnar og nýlega þurfi því að flytja byggingakrana sem þurfti að komast austur á land með flutningaskipi sem hafði viðkomu í Færeyjum. Þjóðvegurinn til Vestmannaeyja lokast um leið og aldan rís upp fyrir ca. 2,5 metra og ekki tókst að koma litlum 60 milljónum króna inn á fjárlög 2025, rétti fyrir kosningar, til að hefja rannsóknir á göngum milli lands og Eyja. Ríkisstjórnin sem nú er farin var þó með metnaðarfull plön og loforð í farteskinu sem skiluðu þó takmörkuðum árangri utan glæsilegra glærukynninga.

Þingsályktunartillaga um jarðgangafélag

Jens Garðar Helgason nýkjörinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnti í jómfrúarræðu sinni í ræðustól Alþingis að hann muni í náinni framtíð leggja fram þingsályktunartillögu um stofnun jarðgangafélags að færeyskri fyrirmynd. Félag sem yrði í opinberri eigu og héldi utan um rekstur jarðganga í landinu sem og að fjármagna og bjóða út framkvæmdirnar rétt eins og hið færeyska Tunnil partafelag gerir. Rökin eru einföld. Við þurfum að bæta úr samgöngum víðsvegar um land og hafa fyrri gangaframkvæmdir skilað miklum ávinningi fyrir nærsamfélögin, þar með fólk og fyrirtæki, eins og t.d. Hvalfjarðargöngin og Héðinsfjarðargöngin sanna.

Framtíð verðmætasköpunar og þar með samfélaga á öllu landinu stendur og fellur með öflugum samgöngum.

Við sem sjáum hag okkar og samfélagsins í bættum samgöngum og aukinni jarðgangagerð hljótum að fagna og styðja umrædda þingsályktunartillögu Jens Garðars. Hvernig ný ríkisstjórn og nýr samgönguráðherra tekur í þessar hugmyndir er svo annar handleggur. Áherslurnar verða að vera á þá einföldu staðreynd að öflugar samgöngur skila til baka í þjóðarbúið. Innviðir þurfa að vera í lagi svo fólk treysti sér að fórna tíma sínum í að skapa verðmæti. Aukin stuðningur við verðmætasköpun skilar sér í auknum tekjum til þjóðarbúsins sem er hinn heilagi grunnur velferðar okkar. Nú ráða flokkar sem meðal annars stæra sig að því að vinna að hagsmunum almennings, væntanlega annað en aðrir flokkar. Það er því sóknarfæri fyrir þá og alla í þessu landi að styðja þá tillögu sem Jens Garðar mun bera fram.

Höfundur

Gísli Stefánsson

Skráðu þig á póstlistann

og fáðu nýjustu pistlana beint í æð