Höfundur:
Gísli Stefánsson
Viðfangsefni:

Hærri skattar skemma

Tvöföldun veiðigjalda, niðurfelling samsköttunar hjóna, hækkun skatta á ferðaþjónustu, nauðasameiningar sveitarfélaga og kílómetragjald á fyrirtæki og almenning eru augljós merki þess að forræðishyggja og skattaæði ríkisstjórnarinnar er í hámarki. Ljóst er að nýta á meðbyr Samfylkingarinnar í könnunum, sem þó er ekki að finna hjá hinum stjórnarflokkunum, til þess að klára ljótu málin snemma á kjörtímabilinu. Ekki virðast standa til að hagræða svo einhverju nemi í ríkisrekstrinum.

Sóun í brennidepli

Umfjöllunin undanfarið hefur dregið í ljós mál þar sem hinsegin samtök í Ameríku fá styrk frá skattborgurum á Íslandi til að halda úti hálauna störfum á sínum snærum og að styðja eigi rampaverkefni í Úkraínu. Á sama tíma og þessum u.þ.b. 200 milljónum sem ráðstafað er í fyrrnefnd verkefni fara úr landi bitnar það á þörfum verkefnum hér innanlands. Einnig er ljóst að ekki hjálpar svona útgjöld við að toga niður verðbólgu og vexti.

Áhrif skatta á verðbólgu og vexti

Eitt af því sem Seðlabankinn leggur til grundvallar í verðbólgumælingum eru verðbólguvæntingar almennings. Almennt séð ættu þær skattahækkanir sem almenningur sér hag af og hefur góða tilfinningu fyrir að sé ráðstafað á þann máta sem lofað var dregið úr verðbólguvæntingum. Ráðstöfunarféð verður minna og eftirspurn minni sem dregur úr væntingum um að verð hækki. Hins vegar þegar á að hækka marga skatta í landi þar sem skattar eru háir fyrir, sem og að væntingar um rétta ráðstöfun þeirra eru litlar eykur það verðbólguvæntingar. Einnig er ljóst að þær aðhaldsaðgerðir sem ríkisstjórnin auglýsti eftir frá almenningi í upphafi kjörtímabils og voru svo smættaðar niður í afar takmarkaðar kostnaðarlækkanir hjá ríkinu bentu eindregið til þess að frekar ætti að hækka skatta en draga saman í ríkisrekstrinum.

Hærri skattar skemma

Nú þegar hefur um 70 manns verið sagt upp störfum í Vestmannaeyjum vegna tvöföldunar veiðigjalda. Líklegt er að það gangi lengra því ólíklegt er að útgerðirnar sjái hag í því að veiða tegundir eins og makríl, en á þá tegund hefur gjaldið hækkað hlutfallslega mest. Nýtt kílómetragjald er sérstakt gjald á landsbyggðina og mun hafa áhrif á framleiðslu þar, þar sem fyrirtæki munu sjá hag sinn í að flytja framleiðslu sína nær megin markaðinum í Reykjavík. Flutningskostnaður út á land mun einnig hækka sem hefur bein áhrif á vöruverð til neytenda þar. Ferðaþjónustan mun þurfa að draga saman til að mæta nýjum sköttum og þannig munu útflutningstekjur lækka. Afnám samsköttunar hjóna letur fyrirvinnu heimilisins til þess að afla meiri tekna því hærra hlutfall þeirra fer í skatta. Afnámið dregur úr getu og vilja annars foreldris til að vera heima og sinna heimili og börnum. Hærri skattar skemma.

Höfundur

Gísli Stefánsson

Skráðu þig á póstlistann

og fáðu nýjustu pistlana beint í æð