Er ekki mikilvægast að þjóðinni líði vel?
Ég sótti á fimmtudagskvöldið síðasta góðan fund á vegum Geðhjálpar sem haldinn var í safnaðarheimili Landakirkju. Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar hélt góðan fyrirlestur og Guðrún Þórsdóttir sagði sögu sína og upplifun af geðrænum vanda. Í lokin komu þeir félagar Emmsjé Gauti og Þormóður og léku nokkur lög sín fyrir gesti.
Stemningin var ljúf og notaleg og nálgun fyrirlesaranna á geðheilbrigðismál var nokkuð ólík þeim staðalímyndum sem við fáum gjarnan að horfa upp á í þeim miðlum sem stjórna umræðunni. Geðheilbrigði er svo miklu meira en aðeins sjúkdómarnir og það sem við tengjum við slík veikindi heldur almennt það hvernig okkur líður frá degi til dags.
Alveg eins og við hreyfum okkur til að rækta líkama okkar, lesum bækur, finnum lausnir í lífi og starfi og ræktum þannig hugann er nauðsynlegt að rækta andann til þess að viðhalda geðheilbrigði okkar. Til þess má nýta bænir, núvitundaræfingar o.fl. Það er hins vegar í nútímasamfélaginu ekki eins sjálfsagt að fólk geri slíkt eins og að það stundi ræktina.
Hvert er núið og hvers vegna erum við þar?
Umræðurnar á fundinum voru uppbyggilegar og fengu hugann til að reika. Það hafa verið tímabil í sögu þessa lands þar sem við vorum duglegri í þessu. Erfiðir tímar hafa fengið okkur til að líta til æðri máttar og horfa meira inn á við, skoða það sem er að gerast hér og nú frekar en að vera með augun á framtíðinni og sjá eftir fortíðinni.
Kirkjan og kristin trú var haldreypi okkar á þeim tímum en eftir því sem hagur þjóðarinnar vænkaðist á ofanverðri 20. öld hefur fráhvarf orðið frá þessum gömlu hefðum, sem sveipaðar voru þessum góðu meginreglum og gildum sem hafa fylgt manninum frá örófi alda. Kærleikur og samhygð samfélags hefur vikið fyrir aukinni efnishyggju og aukum einmanaleika. Við kennum tækninni um og hún á sinn þátt en ég vil eiginlega frekar horfa til þess sem var að gerast um aldamótin.
Allt í lausu lofti
Austrið hafið tapað fyrir vestrinu og hin nýja heimsmynd (e. New World Order) sem Bush eldri talaði um virtist vera yfirvofandi þar sem lýðræði vesturlanda myndi trompa aðra stjórnunarhætti. Þar voru stjórnarhættir í gömlum menningarheimum í miðausturlöndum og Asíu ekki undanskildir. Rússland varð að bandamanni vestursins og hinn meinti 2000 vandi varð allt í einu að einhverju alheimsvandamáli sem eftir á að hyggja hefði sennilega verið hægt að redda með samhentu átaki helstu forritara þess heims á augabragði ef af honum yrði.
Radiohead gaf út plötuna Kid A á eftir hinni gríðarlega vinsælu OK Computer og var henni illa tekið af gagnrýnendum sem höfðu búist við öðru meistaraverki sem næði að krydda meginstraumsrokk þess tíma eins og OK Computer hafði gert. Platan seldist þó í bílförmum því tónninn í henni snerti taugar samtímans. “Everything in its right place” söng Thom Yorke á sinn kaldhæðnislega hátt þegar einmitt enginn vissi lengur hvert heimurinn var að stíga. Það var ekkert svart hvítt lengur eins og á tímum Kalda stríðsins.
Staðan á Íslandi um aldamót
Hér heima sá maður þetta á verkalýðsfélögunum því þau voru búin að ná öllum markmiðum sínum og hætt var að tala um dag verkalýðsins á 1. maí heldur frekar dag launafólks. Stjórnmálamenn töldu helstu markmiðum náð og nú snérist þetta að teknókratískum lausnum hér og þar í kerfinu sem þyrfti að stilla af eftir tíðaranda hvers tíma.
Vinstri menn fóru að beita sér gegn stofnunum samfélagsins og ein þeirra sem varð fyrir barðinu var kirkjan sem ekki mátti koma lengur inn í skólana. Samhygð og kærleikur var látinn víkja vegna þess að innrætingin var slæm. Ekki skipti máli með hverju börnin voru innrætt. Þau áttu bara að fá að velja sjálf alveg upp á eigin spýtur. Það er þó aðeins fyrirsláttur því menn vinstra megin á vængnum vita alveg eins og við hægra megin að framboðið ræður eftirspurninni og öfugt og með því að klippa á annað hvort hefur þú áhrif á útkomuna.
Ætlar pólitíkin að gera eitthvað?
Á sama tíma og þetta hefur verið viðhaft í fleiri ár skipta þessir sömu stjórnmálmenn sér ekki að því hvað börnin horfa á í snjalltækjunum sem þau hafa aðgang að. Þar er nægt framboð af hörmungum sem skilningur á kristnum gildum og meiri víðsýni getur unnið á móti en því er haldið frá. Niðurstaðan er minni samhygð og meiri einmanaleiki, veikari samskiptageta og þar af leiðandi veikari geðheilsa.
Grímur benti á í sínum ágæta fyrrnefnda fyrirlestri að fjölmiðlar hefðu lagt út rauðan dregil fyrir stjórnmálamenn til að ræða geðheilbrigðismál þegar Alþingi var sett nýlega. Alda ofbeldisverka sem skekið hafði þjóðina og verið áberandi í umræðunni og fjölmiðlum náði þó ekki efst á baug þegar stjórnmálamenn voru spurðir um komandi þingvetur. Verðbólgan og orkumálin, ríkisfjármálin og flóttamannavandinn voru svörin. Allt er þetta gríðarlega mikilvægt en er ekki þjóðinni mikilvægast að líða vel?
Höfundur
Skráðu þig á póstlistann
og fáðu nýjustu pistlana beint í æð