Þarf RÚV tekjur á við 5.000 íbúa sveitarfélag?
Ríkisútvarpið sem er í eigu þjóðarinnar er á samkeppnismarkaði. Ríkisútvarpið keppir við aðra fjölmiðla, stóra sem smáa um frekar lítinn og lokaðan auglýsingamarkað, sem hefur í raun minnkað enn meira með tilkomu félagsmiðla sem byggja tekjumódel sín fyrst og fremst á auglýsingatekjum.
Slagurinn við Golíat
Auglýsingatekjur RÚV árið 2023 voru 2.941 milljón króna. Ríkið veitti á sama tíma styrki til einkarekinna fjölmiðla upp á rúmar 470 milljónir. Tekjumódel einkareknu miðlanna byggir fyrst og fremst á auglýsingatekjum og því að mínu viti út úr kortinu að RÚV sé á auglýsingamarkaði. Það væri miklu nær að sjálfstæðir miðlar fengju að keppast um þessar tekjur og ríkið léti af þessari meðvirkni og leggði af styrkina.
Tekjur á við meðalstórt sveitarfélag
Heildartekjur RÚV árið 2022 voru 7,9 milljarðar og 8,7 árið 2023. Á sama tíma voru tekjur Vestmannaeyjabæjar 8 milljarðar árið 2022 og 9.1 árið 2023. RÚV hefur þar að leiðandi álíka tekjur eins og sveitarfélag sem telur tæplega 5.000 íbúa og þar sem tekjur íbúanna og um leið útsvarstekjur sveitarfélagsins er með hæsta móti.
Gjöldin líka
Gjöld RÚV árið 2022 voru tæpir 7.6 milljarðar en rúmir 8.2 árið 2023. Á sama tíma voru gjöld Vestmannaeyjabæjar 7.4 milljarðar árið 2022 en tæpir 8.2 árið 2023. Aftur eru útgjöld RÚV í anda sveitarfélags af þeirri stærðargráðu sem Vestmannaeyjar er.
Fjölmiðlun og margmiðlun á færi allra
Ég velti því fyrir mér hvort að stofnun í eigu ríkisins, með starfsemi sem sífellt verður auðveldara og aðgengilegra fyrir hinn hefðbundna meðaljón að stunda, sökum aukinnar tækni og með tilkomu gervigreindar, þurfi svona mikla fjármuni til að halda uppi starfsemi? Getur stofnunin ekki sinnt menningarlegu hlutverki sínu fyrir minni pening?
Samkeppni við litla manninn
Á undanförum misserum sjáum við að Ríkisútvarpið er með allar klær úti og fer í samkeppni við einkaaðilann um leið og honum gengur vel. Helsta dæmi þess eru hlaðvörpin sem hafa náð miklum hæðum undanfarið. RÚV lætur ekki sitt eftir liggja og setur nánast alla sína útvarpsþætti og dagskrárgerð frá sér í þesskonar sniði í krafti yfirburða sinna og forskots. Það væri kannski ekki merkilegt að RÚV væri að taka þátt í þessari miðlun nema fyrir þá einföldu ástæðu að hlaðvörpin þeirra eru í tuga tali og hlutfallslega langt um fleiri en gengur og gerist hjá öðrum miðlum.
Skatturinn, dauðinn og útvarpsgjaldið
Annar liður í tekjuöflun stofnunarinnar eru útvarpsgjöldin sem enginn kemst hjá að borga. Það er bara þrennt öruggt í þessum heimi, það er skatturinn, dauðinn og útvarpsgjöldin, a.m.k. á meðan maður býr á Íslandi. Þau eru barn síns tíma enda ekki val. Þetta er einn af þeim fáu draugum sem enn lifa frá því tímabili sem Ísland var í höftum. Í dag höfum við um margt annað að velja til að sækja okkur afþreyingu, fréttir og upplýsingar. Treystir ríkið ekki þessu ágæta fólki sem vinnur hjá Ríkisútvarpinu að búa til efni sem viðheldur eða jafnvel eykur áhuga fólks á miðlum og dagskrárgerð Ríkisútvarpsins?
Svona hefur þetta alltaf verið – Bannað að breyta
Ég tel að hér sé breytinga þörf og er ég ekki einn um það. Hvort það eigi að leggja starfssemina niður er ég ekki viss um en það þarf a.m.k. að taka stofnunina af auglýsingamarkaði og leggja niður RÚV ohf. RÚV yrði í framhaldi gerð að stofnun á fjárlögum með sjálfstæða stjórn líkt og lagt var til af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sl. haust. Hvort það gerist í náinni framtíð ræðst að kjarki þingheims til að horfast í augu við að réttlæti er lítið sem ekkert í starfsemi sjálfstæðra fjölmiðla á Íslandi.
Höfundur
Skráðu þig á póstlistann
og fáðu nýjustu pistlana beint í æð